Glímt við vandamálin 1 af 3

Síðustu dagar hafa verið tileinkaðir málefnum sem ég þekki vel. Þessir hlutir er dagur Endometriosu, afmæli Stígamóta og minning sem poppaði upp á facebook í sambandi við Robin Williams sem að vísu var birt fyrst 2. júní 2015 á síðu Daveswordsofwisdom.com

Mig langar til að taka mér tíma og skrifa um mína reynslu af þessu þrennu og ég ætla að gera það í sitthvorri færslunni því annars verður þetta endalaus bók og hlutir sem skipta máli gleymast frekar og týnast í röfli. Well ég ætla að byrja á Endómetríósu og minni upplifun af henni.

Já það er rétt, ég hef barist við Endómetríósu eða legslímuflakk frá því að ég fékk mínar fyrstu blæðingar árið 1989. Ég skildi ekki og hef ennþá daginn í dag ekki skilið þegar sagt er TIL HAMINGJU. Hvað var svona æðislegt að vera byrjuð á túr. Það er ekki bara að þér blæði heldur kvalirnar. Fyrsta skiptið var óþægilegt en versnaði svo við hverjar blæðingar. Ég man eftir að liggja grenjandi á baðherbergisgólfinu, búin að æla út af verkjum, haldandi um kviðinn og í raun bíða eftir að næstu dagar myndu líða hratt, byðjandi fyrir því að fá að sofa alla vega smá. Á milli blæðinga var ég alltaf kvíðin fyrir næstu blæðingum því ég vissi aldrei hversu slæmar þær yrðu. Í kaupbæti fékk ég líka eitthvað sem kallast fjölblöðruheilkenni eða PCOS. Það lýsir sér þannig að blöðrur myndast á eggjastokkana sem eru fullar af vökva og stundum blóði. Í báðum tilfellum var ég tíður gestur á kvennadeildina, hjá kvennsjúkdómalækni og niðrá slysó þar sem kvalirnar voru stundum svo hrikalegar að það leið yfir mig og lá ég kanski hálf meðvitundarlaus á gólfinu búin að kasta upp. Þegar ég var 17 ára kom upp einmitt mjög alvarlegt tilfelli. Mamma hringdi í læknavaktina og var læknir sendur heim til okkar. Sá læknir var alveg með það á hreinu að botlanginn væri að springa hjá mér og sendi eftir sjúkrabíl og var ég send með hraði niður á Borgarspítala. Þeir sem tóku við mér þar voru nú ekki sammála því að þetta væri botnlanginn þar sem ég væri nú ekki með hita (en ég hef aðeins einu sinni á ævinni fengið hita sem var meiri en 37,5). Uppá spítala var ákveðið að dæla  í mig verkjalyfjum og sjá svo til. Eftir 2 daga var ég svo send heim en daginn eftir ef mig minnir rétt var ég aftur komin uppá spítala með mun meiri kvalir enda orðin dóplaus ef svo má að orði komast. Ákveðið var að halda mér yfir nótt en ég var svo send heim með pillur í farteskinu enda var komin helgi og ekki hægt að hafa stelpukjána inná spítala yfir helgi. Helgin leið og man ég lítið eftir henni enda lá ég í rúminu allan tímann og grenjaði. Grenjaði úr verkjum, grenjaði yfir skilningsleysi, grenjaði yfir því að kanski væri ég bara ímyndunnarveik, grenjaði úr hræðslu því ég hélt að ég væri að fara að deyja. Helgin leið og ég var enn sárkvalin. Ákveðið var að ég yrði heima á mánudeginum en á þriðjudeginum ákvað ég að bíta á jaxlinn, þar sem ekkert var að mér hvort eð og ég dreif mig í skólann. Fyrsti tíminn var félagsfræði þar sat ég með tárin í augunum í keng, kófsveitt af verkjum. Kennarinn minn sem þolir ekki aumingjaskap kom að endingu til mín og sagði mér að fara heim ég væri greinilega sárlasin. Ég tók því dótið mitt og rölti niður í strætóskýli til að fara heim. Þegar leið 15 kom sem ég tók alltaf heim í Frostafoldina, fattaði ég að ég var ekki með græna kortið mitt, ég hafði lánað vinkonu minni það þar sem ég var hvort eð er búin að vera lasin. Ég ákvað þá að labba úr Ármúlanum alla leið niður á laugarveg þar sem Emmessís var staðsett á þessum tíma en mamma var að vinna þar. Þegar þangað var komið var ég alveg búin með allt, orkuna, styrkinn já ég var búin með allt. Ég hrundi niður og hágrét um leið og ég sá mömmu því ég vissi að hún myndi bjarga mér. Mamma hljóp upp til yfirmannsins og lét hann vita að hún þyrfti að fara með mig aftur uppá spítala og út í bíl var svo farið. Þegar við komum uppá Borgarspítala eina ferðina en var ég sett inní eitthvað skoðunarherbergi ýmislegt gert við mig til að ath. hvort um botnlangan hafi verið að ræða. En þegar læknirinn fer fram eftir skoðun hittir hann greinilega kolleiga sinn og mamma heyrir hann segja „æjjjj hún er bara með einhverja smá magapínu, við sendum hana heim í kvöld eða á morgun“ EHHHHHHH verð bara að segja greyið gaurinn því mamma TRILLTIST, TJÚLLAÐIST, VARÐ ANDSETINN af reiði. Konan missti sig á læknagreyinu sem endaði á að ákveðið var að spegla kviðarholið í mér. Ég var undirbúin undir örlitla aðgerð sem ætti að taka örskotstund og ég myndi vakna inná herbergi.  En raunin varð önnur. Eftir sex og hálfa klukkustundar aðgerð var mér rúllað inná gjörgæslu með risa skurð hægramegin á kviðnum, öll í slöngum með allskonar kokteilum eins og morfíni, saltvatni og blóði, tengd í öndunarvél og hjartalínurit. Það sem kom í ljós í spegluninni var blaðra á hægri eggjastokki sem var eins og barnshöfuð á stærð, full af blóði og vökva. Það besta var að rifa var á blöðrunni og var kviðarholið orðið fullt af blóði, mér að blæða út innvortis og hefði ég ekki lifað af nóttina hefði mamma ekki tekið trylling á slysó. Þumlar upp fyrir múttu

Ég lá nú ekki lengi inná gjörgæslu en ég var færð um morguninn inná vöknun og þaðan inná deild (er mér sagt, man næstum ekkert). Ég fékk ekki nema 2 ltr af blóði en það er það sem ég man eftir því ég missti mig og öskraði hástöfum „ÉG FÆ AIDS, ÞIÐ ERUÐ AÐ SMITA MIG AF AIDS“ Já ekki mín stolltasta stund en mér til varnaðar þá var ég útúrkexdópuð af læknadópi. Ég var mjög stutt inná á spítala var hennt heim liggur við áður en að síðasti saumurinn var skelltur í kjélluna.  Næstu dagar voru virkilega erfiðir þar sem að líkami minn hafnaði blóðinu (en margir gleyma því að blóð er líffæri eins og hjarta, lungu já og húðin okkar) Ég var veik, virkilega veik. Fyrst og eina skiptið sem ég hef fengið hita á æfinni en ég rauk upp í 40,7 og þarna á stuttum tíma var mér ekki hugað líf tvisar sinnum út af sama hlutnum „TÚRVERKJUM“

Þetta ár fékk ég að vita að líkurnar á því að ég myndi eignast barn væru litlar sem engar en ég harðneitaði að trúa því enda þráði ég það heitt að fá að verða eiginkona og móðir, draumur sem ég var búin að eiga............... Alltaf.

Árin liðu og í hverjum einasta mánuði kom gamallkunnur vinur í heimsókn sem ég hataði svo mikið og hann kom ekki bara þegar blæðingar voru því hann heimsótti mig líka alltaf þegar ég var með egglos eða að verpa eins og ég kallaði það.

Margar konur sögðu við mig að þetta myndi lagast ef ég myndi eignast barn, bara svona af því að það er svo lítið mál. Bara vúps ég er ólétt... Aðrar sögðu hvað tekurðu ekki bara paratabs eða trio og harkar svo bara af þér? Karlmenn ranghvolfðu í sér augunum og hugsuðu að þetta væri afsökun til að taka út veikindadaga. Fordómarnir voru endalausir. En ferðirnar niður á kvennadeild urðu ekkert færri þar sem ég fékk yfirleitt morfín og var svo hennt heim. Ég var búin að reyna allt. Var sett á pilluna 14 ára og alls konar lyf til að sporna við verkjunum en ekkert virkaði. Segja má að ég hafi verið orðin uppgefin á líkama og sál þegar kraftaverk gerðist. Ég varð ófrísk. Ég var sko ekki að trúa því og vá hvað ég var hrædd alla meðgönguna að ég myndi missa fóstrið og vá hvað ég var óþolandi og sjúklega leiðinleg ólétt kona. Þegar leið að fæðingu eftir ofsalega erfiða meðgöngu var ég svoldið spennt að þurfa ekki að upplifa túrverki aftur en vá hvað ég varð fyrir miklum vonbryggðum. Túrverkirnir komu aftur og í kaupbæti fékk ég ofsablæðingar sem gerðu það að verkum að mér blæddi niður á hné. Allt var reynt og eitt sem reynt var var hormonalykkjan en hún á að stoppa blæðingar og gerir það að verkum að túrverkirnir koma ekki. Ehhhhhh heldur betur ekki. Í stað þess að blæða næstum út þá minnkuðu blæðingarnar og ég var ekki nema kanski 25-27 daga á blæðingum í stað þess að vera 30-31 dag. Já frí á milli blæðinga fór í 5-7 daga úr 1-2, já og mér blæddi ekki eins mikið. Ég var stannslaust hjá kvennsa og nei það er ekkert spennandi, það er meira niðurlægjandi, óþægilegt, vont það er ekkert við þetta sem segir við mann hey endilega komdu aftur. Ég var búin að fara síðan ég var 13 ára og orðin dauðþreitt á endalausu engu fyrir utan það að vera ótrúlega kvekkt.  Enga lausn var að finna, engin svör, ekkert. Jú aðgerðir hjálpuðu í smá tíma en það var bara smá tími og mér fannst stundum ekki taka því að leggja það á mann því alltaf beið maður eftir því að horrorinn byrjaði aftur uppá nýtt og í hvert skipti leið mér eins og verkirnir væru reiðir og kæmu með fullu trukki og væru í leiðinni að hlæja að mér „Þú losnar aldrei undan okkur.“

Loksins eftir endalausa baráttu fékk ég það í gegn (með hjálp læknanna minna) að fá að fara í fullt legnám. Ég lagðist inná spítala í mai 2016 með fullt af tilfinningum í maganum. Ég var spennt og skíthrædd í einu. Þegar ég vaknaði eftir aðgerðina sem tók 3 klt. vissi ég að ég var laus, ég var loksins frjáls. Ég er enn tæplega ári síðar hissa að vera ekki liggjandi í rúminu regglulega faðmandi hitapoka og bryðjandi verkjalyf í tonnatali. Að vísu skellti ég mér á breytingaskeiðið en OMG það er svo þess virði.

Áður en þið sem skiljið ekki „túrverki“ farið að dæma hugsið út í það hvað margar konur hafa gert og eru tilbúinar til að gera til að losna við þessar vítiskvalir. Þær eru meira að segja tilbúnar til að leggjast undir hnífinn og láta taka í burtu það sem búið er að segja að geri þær að konum. Ef ég hefði vitað hvernig lífið yrði án barnaherbergis (móðurlífsins) hefði ég látið taka allt draslið um leið og ég átti yndislega kraftaverkið mitt.

Ég vona að þessi pistill minn hjálpi einhverri konu þarna úti, upplýsi einhverja að þetta er ekki eitthvað sem við leikum okkur með og hjálpi til við þá fordóma sem við endómetríosukonur og PCOS konur þurfum að díla við.

Ég vil líka minna á það að það er alls ekki auðvellt fyrir allar konur að verða barnshafandi, fyrir sumar er það jafnvel ómögulegt og þessar spurningar um hvenær eigi að koma með barn eru oft eins og rýtingur í hjartað ég alla vega þoldi þær ekki og veit um aðrar konur sem segja það sama.

Vill endilega benda á síðu Samtaka um Endómetríósu www.endo.is

 

Næst ætla ég að tala um Stígamót og hvað þau samtök þýða fyrir mig.

Þangað til hugsum þá vel um hvort annað og reynum að setja okkur í spor náungans

Knús úr Árbænum

Bryndís Steinunn

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband