Glímt við vandamál 2 af 3

 

 

Jæja vá hvað ég er ekki að standa mig hér.

 

En ég var búin að lofa mér að skrifa um Stígamót og hvað þau samtök hafa gert fyrir mig en þau áttu afmæli 8. Mars síðastliðin

 

Þau voru einmitt nýlega búin að opna þegar ég kom þangað í fyrsta sinn, hrædd og rosalega feimin. Stígamót voru staðsett niður í bæ í sama húsi og Fríða Frænka og ég man eftir að hafa farið þangað með mömmu. Við þurftum að labba næstum bakvið húsið að tröppum sem  lágu upp að dyrunum og þessar tröppur virtust endalausar og auðvitað fannst mér allir í heiminum vera að horfa á þetta hræ sem dröslaðist á eftir mömmu sinni. Þegar inn var komið blöstu við okkur fleiri tröppur en við komumst á endanum á áfangastað. Þar tók á móti okkur yndæl kona sem ég man ekkert hvað heitir enda man ég ekkert hvað var talað um eða hvort að ég sagði eitthvað yfir höfuð. Man bara að ég hafi horft á alla bangsana sem voru þarna. Einn var svo stór og mig langaði bara að henda mér í hruguna, kúra hjá þeim og gleyma að ég væri þarna, gleyma öllu, vera bara barn en auðvitað sat ég kjurr og stillt og prúð því ég var nú nýorðin 14 ára og alveg að fara að fermast, næstum því komin í fullorðinstölu. Þarna lærði ég margt um sjálfa mig og tilfinningar sem voru eðlilegar bæði líkamlega og andlega. Það er eðlilegt að vera sár og reiður og hræddur og leiður og glaður og ruglaður. Þetta eru allt tilfinningar sem eru eðlilegar hjá barni sem í raun hefur verið sett í stöðu sem er óeðlileg. Það er ekkert eðlilegt við það að sá sem á að ábyrgjast öryggi barns skuli vera sá sem brýtur það, það er ekkert eðlilegt við það að fullorðinn gera hluti sem maður veit að eru sjúklegir og rangir í alla staði. Þegar maður hefur lennt í því sem barn að brotið er á manni á þennan hátt vitandi að þetta sé rangt en halda það samt að þetta hljóti að vera í lagi því að hann er jú fullorðinn og þú ert bara barn sem veist ekki betur þá er ekki skrítið að maður efist um sjálfan sig og tilfinningar sínar. Þú ert stannslaust í togstreitu um að vita og halda og þetta endar í einum hrærigraut þar sem allt er á gráu svæði. Þegar þú hefur líka ekki alist upp við það tilfinningalega öryggi sem börn eiga að finna þá veistu líka ekkert hvernig það er að tengjast öðrum tilfinningalega rétt. Ég er ótrúlega óþroskuð þegar það kemur að tilfinningum mínum til karlmanna og í raun og veru kann ég bara ekkert á þá og skil þá ekki. Stundum vildi ég óska þess að allir karlmenn væru giftir því þá er þessi pressa ekki til staðar, þeir eru ekki á markaðinum.

 

En aftur að Stígamótum. Í mörg ár fór ég niður eftir viku eftir viku og ræddi við stuðningsfulltrúann sem mér var úthlutaður hverju sinni. Ég tók tíma þar sem ég var dugleg og mætti í hverri einustu viku og svo tók ég mér frí í einhvern tíma og stundum lengri.

Fyrir um 10 árum hafði ég aftur samband og fór þá í hópatíma með nokkrum öðrum dásamlegum konum sem allar höfðu það sameiginlegt að einhver hefði brotið á þeim þegar þær voru börn. Einni var meira að segja talið trú um það af brotamanninninum að hún væri ástfangin af honum og vildi þetta. Já þeir eru slungnir. Þeir kunna að koma allri ábyrgð yfir á brotaþola. „Sjáðu hvað þú hefur látið mig gera?“   „Ég elska þig svo mikið og get ekki lifað án þín en við þurfum bara að bíða í 4 ár í viðbót og þá getum við gift okkur en þangað til þú verður 18 verður þú að þegja og þetta er okkar leyndarmál“. „Ef þú segir mömmu þinni þá á hún eftir að verða svo reið út í þig, eða sár því að þú veist að það má ekki gera svona hluti sem þú hefur látið pabba gera“

 

Já þetta er ógeðslegt að svona skuli vera til en þetta er raunveruleiki fyrir allt of marga. Það eru líka enn að finnast fordómar í sambandi við þessi mál og þá sérstaklega nauðganir.

Alltof oft fær maður að heyra setningar eins og „æjjj var hún ekki bara aðeins of drukkin“ eða „Klæðnaðurinn á þessum stúlkum í dag“

 

Já það er alveg satt auðvitað getum við gert ráðstafanir í öllu. Við ættum að passa okkur á að verða ekki of drukkin, ekki til að varna nauðgun heldur bara það að verða of drukkinn er óhollt fyrir okkur, við gætum líka dottið og slasað okkur. Við ættum líka að klæða okkur vel áður en við förum út í frost og kulda til að passa uppá að verða ekki lasin.

 

Ég er líka sammála að föt sem stelpur eru oft í eru líkari belti og axlaböndum en pilsi og bol og finnst oft þessi klæðnaður meira sæma sig sem undirföt en ekki venjuleg föt en kanski er ég bara orðin gömul og hallærisleg.

 

En gleymum því aldrei að nauðgun á aldrei rétt á sér. Hvernig sem stelpa eða strákur klæða sig eða í hvaða ástandi sem manneskjan er í þá er ekkert sem réttlætir það að ráðast á aðra manneskju og brjóta á henni.

 

Annað er að stundum er þetta „annarlega ástand“ sem manneskjan er í eitthvað sem hún var sett í án hennar vitundar. Það er víst ótrúlega auðvelt að búa til smjörsýru og er hægt að finna það bara á netinu með því að googla það. Hlutirnir sem notaðir eru til að gera svona viðbjóð er hægt að finna í næstu Bónus verslun það er að segja ef þú finnur þetta ekki allt heim hjá þér.

Það skiptir engu máli hvort manneskjan sé í góðu formi, vön að drekka,  eða er yfir höfuð að drekka hún verður alveg út úr því.

Fyrir nokkru síðan ákvað Sölvi Tryggvason þáttastjórnandi að prufa þetta lyf og ath. áhrifin af þeim og hann mundi varla kennitöluna sína. Hægt er að sjá þáttinn hér http://menn.is/solvi-tryggva-naudgunarlyf-i-midbaenum-mun-algengari-en-folk-heldur/

Einnig heyrði ég um konu sem hafði farið í atvinnuviðtal (erlendis) og fékk kaffibolla. Næsta sem hún man eftir er að ranka við sér  þar sem henni er hópnauðgað. Henni tekst einhvernveginn að flýja og mun aldrei lifa eðlilegu lífi eftir þetta, sérstaklega þar sem allt var tekið upp á myndband og sett á netið þar sem aðrir sjúkir einstaklingar geta skemmt sér við að horfa á þennan viðbjóð.

 

Já Stígamót, Blátt áfram, Drekaslóð og fleiri staðir hafa verið eins og vin í eyðimörk fyrir marga og verð ég alltaf þakklát í hjartanu þegar ég  heyri um þessa staði eða sé þá.  Því miður þurfum við á þeim að halda en sem betur fer eru þeir til. Þessir staðir hafa barist fyrir viðurkenningu ofbeldisins að þetta sé ekki bara í hugarheimi kvenna eins og stóð í ÍSLENSKRI KENNSLUBÓK FYRIR GEÐLÆKNA fyrir um 50 árum síðan. 50 ár er langur tími en ef þú spáir í það þá var þetta bara í kringum 1960-1970.

Já við höfum komist langt á þessum 27 árum frá því að Stígamót var opnað en á móti hefur illskan í heiminum aukist og fleiri leiðir til að brjóta á öðrum einstaklingi hafa fundist upp. Við þurfum því að halda áfram á móti að vera dugleg að tala þessa hluti í hel því að í þögninni felur ofbeldið sig. Gleymum því heldur ekki að sama hvort að þetta gerðist í gær, fyrir 10, 20, 30 árum já alla ævina heldur ofbeldið áfram í formi þess að fórnarlambið viðheldur því með öllum sínum efasemdum um sjálfan sig og hvað ef og bara ef.....  Þetta er vinna sem að er aldrei búin, þú ert aldrei útskrifaður. Hlutirnir skána og stundum er lífið alveg frábært að sjálfsögðu og flestir læra að lifa eðlilegu lífi aftur en fallega húsið sem býður uppá hjálpina sem þú þarft og fordómaleysið verður jafnnauðsynlegur og sjúkrahúsið. Þú þarft ekki að vera þar stanslaust alla ævi en þú gætir þurft á því að halda og þá er nú aldeilis gott að geta leytað til þeirra.

 

Heimasíða Stígamóta er

https://www.stigamot.is/

Einnig er hægt að styrkja samtökin með því að fara hér inn

https://www.stigamot.is/is/styrktartengill

Vonandi þarft þú lesandi góður aldrei að upplifa það að verða fyrir ofbeldi sem þessu eða einhver sem þér er nákominn en líkurnar á því að þú þekkir einhvern sem jafnvel glímir við afleyðingar ofbeldisins akkúrat núna eru töluverðar.

 

Höldum áfram að þykja vænt um hvort annað og verum góð við hvort annað.

Knús úr Árbænum gamla

Bryndís Steinunn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband