Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016

Stokkseyri, sund og útilega

Sæl dásamlegu lesendur

Um helgina dreif ég mig í útilegu á Stokkseyri með soninn og vin hans. Ætlunin var að kíkja á Afrófestið en þar sem ég er meira utan við mig en einhverfur sonur minn í öllum fötunum á röngunni þá eiginlega fór ég á vitlausann stað, VÚÚÚPPPPPSSS. 

 

Við lögðum seint af stað eða um 4 klt síðar en ég hafði áætlað en isss skipti engu. Bíllinn var svo smekkfullur að ég var viss um að aftur stuðarinn myndi fjúka af á leiðinni en svo varð ekki. Við komum inn á Stokkseyri og keyrðum bæjinn endanna á milli og fundum ekki tjaldsvæðið. Eftir endalausa leit ákváðum við að stoppa við fína kortið sem er strax að finna þegar maður kemur í bæinn, sem ég að sjálfsögðu ákvað að hunsa fyrst þegar ég kom. Að sjálfsögðu var þar útlýst hvar tjaldsvæðið var og fundum við það um leið. Örfáir húsbílar og enn færri tjöld voru á svæðinu en ég spáði nú ekkert í að það væri eitthvað skrítið við það og fór að rífa útúr bílnum og byrja að tjalda. Drengirnir voru fljótir að finna sér einhverja krakka til að leika við og var það mikil gleði fyrir mig því að þótt þessar elskur séu öll af vilja gerð þá eru þau bara stundum fyrir þegar þau vilja hjálpa. Ótrúlegt hvað þau eru hvergi að finna samt þegar maður þarf á hjálp að halda huhhhhhundecided

 

Alla vega, einhvernveginn tókst mér að koma tjaldinu upp og fór að bera inn í það mat og föt og annað útilegudót en fyrir þessa 2 daga var að sjálfsögðu tekið nóg af öllu og ég held að ég hafi sagt nokkrum sinnum yfir daginn alla dagana, ÉG Á VIÐ VANDAMÁL AÐ STRÍÐA. Já ég var pottþétt með mat fyrir mánuð en ekki helgi. Ég var fljót að koma samt öllu fyrir eins og herforingi og skellti prímusnum í gang og sauð pylsur ofan í mannskapinn. Eitthvað var sonur minn ekki sáttur við brauðin en ég hafði keipt þessi nýju frá myllunni og harðneitaði hann að éta þessi "ógeðslegu brauð" eins og hann sagði. 

 

Ég var fljót að fatta að ég hefði nú eitthvað farið villur vegar en var þá búin að greiða fyrir tjaldstæði yfir helgina og ákvað að nenna ekkert að færa mig en ákvað samt að senda skilaboð á FB síðu hátíðishaldara. Jújú festivalið var í fullum gangi en bara rétt fyrir utan Stokkseyri, vel gert Bryndís, ekki klára að lesa auglýsingar. Kallast víst ADHD eða hvatvísi að henda sér út í hlutina án þess að hugsa. Mamma segir að þetta sé fljótfærni og ég eigi ekki að kenna ADHD um. Fyndið ég er alltaf að segja það sama við soninn, ætti kanski að fara að hlusta á sjálfan mig og fara eftir því sem ég reyni að kenna litla manninnum með stóru fæturnar. (hann er alveg heilum 3 cm lægri en mamma sín sem er heilir 150 cm og hálfur til viðbótar og hann notar skó nr. 41)

 

Einhvern tímann var skriðið í pokann sem var að sjálfsögðu með biluðum rennilás arrrrrg og augum lokað. Um miðja nótt eða um 4 leytið vaknaði ég við það að ég lá ekki lengur á þægilegri vindsænginni heldur var allt loft farið úr henni og kúrðum við á harðri ískaldri jörðinni. Ég var of þreitt til að gera eitthvað í málunum og hélt bara áfram að sofa en var alveg búin að gefast upp klukkan 6 enda var bakið orðið stirðara en spítukall og öxlin sem er biluð eftir bílslys öskraði af sársauka. Ég skellti mér því úr tjaldinu og í fortjaldið og hitaði mér vatn í kaffi. Vá hvað kaffi gerir alltaf allt betra. Stuttu síðar voru báðir drengirnir komnir út, fengu sér morgunmat og voru í sjúklega glöðu skapi yfir því að ég hafi gleymt að taka með tannkrem því það er víst ótrúlega leiðinlegt að tannbursta. Ég sagði þeim að það væri nú ekki mikið mál þar sem stutt væri í Hveragerði og við myndum bara skuttlast í Bónus og versla okkur eitt stk tannsápu. Við fórum nú ekki fyrr en í kringum hádegi en þá voru strákarnir búnir að fara í alls konar leiki með nýjasta besta vini þeirra sem var í næsta tjaldi að ferðast um landið með foreldrum sínum. John en það var nafn hins 13 ára gamla nýja besta vinarins er frá Orlando og var strax gerð plön um það að hittast þegar við heimsækjum MikkaMús land á næsta ári en á meðan sat hinn svektur yfir að geta ekki komist með. Hann var nú samt fljótur að taka gleði sína upp aftur þar sem hann leysti málið með því að mamma hans og pabbi myndu bara vinna í lottóinu og þá væri þetta bara ekkert mál. 

Í Hveragerði eða Hurdígurdí eins og John kallaði það við mikinn fögnuð Íslendinganna, fórum við í jarðskjálftasimmjúleiterinn og vá hvað okkur brá mikið og öskruðum öll þegar kvikindið fór í gang og ég hvet alla til að prufa þetta alla vega einu sinni. Eftir að hafa skoðað sig aðeins um í Hurdígurdí fórum við aftur til baka með tannkrem og venjuleg pylsubrauð í poka og fengum okkur smá næringu. 

Ég var alveg búin á því og ákvað að leggja mig örlítið og einhvern tímann á því tímabili sem ég svaf voru báðir drengirnir komnir og sváfum við vært til 6 um kvöldið alveg búin á því enda búin að fá alvarlega súrefniseitrun, allt of mikið af hreinu lofti og heilnæmri afþreygingu sem féllst í lestri, spila og hlaupa um úti. Ég fékk nú að heyra þá spurningu stannslaust hvort ekki mætti kíkja í símann á youtube en ég gallhörð sagði bara þvert NEI, það og síminn varð fljótt batteríslaus þar sem ég var að leika mér í Criminal case og snappa suss ekki segja neinum.

 

Eftir að við skriðum aftur á fætur ákváðum við að kíkja nú aðeins við á Afrófestivalinu sem var nú einu sinni ástæðan fyrir því að við skelltum okkur út fyrir borgina. Þarna var fólk samankomið og allir svo glaðir, búnir að spila á afrískar trommur og dansa og jógast og eitthvað og var núna verið að undirbúa ekta Afrískann mat. Ég ætla sko pottþétt að fara næsta sumar og hvet bara sem flesta til að gera slíkt hið sama. Já og munið rétt fyrir utan Stokkseyri.

 

Við komum til baka og ákveðið var að kvöldmaturinn yrði bara brauð og snarl þar sem ég nennti með engu móti að elda neitt. Eftir að strákarnir voru búnir að skvettast svoldið í fótbolta og yfir og róla og kubb og eitthvað fleira skemmtilegt þá var ákveðið að koma sér kósý fyrir inní tjaldi og spiluðum við Kjaftöskju. Þetta spil er algjör snilld og skil ég stundum ekki afhverju það er að fást á skítogpriki eða undir 1000 kr. Við alla vega hlógum mikið og þrátt fyrir að ég sé 20++ og strákarnir 10 og 12 ára þá sló þetta jafn mikið í gegn hjá öllum. 

 

Við sváfum vært yfir nóttina þrátt fyrir að læki aftur úr dýnunni en strákarnir sváfu á henni þessa nóttina enda mun léttari en undirrituð þannig að um morguninn var ennþá aðeins loft í henni og þá klukkan 9. 

Við tókum því nú bara rólega en svo fór ég að ganga frá, setja í bílinn og taka tjaldið saman. Já enn og aftur sá ég að ég ætti við verulegt vandamál að stríða þegar kemur að mat. Kæliboxið var næstum fullt enda voru teknar með 20 pylsur fyrir okkur 3, 2 dollur af salati, 3 fernur af mjólk, 4 dollur engjaþykkni, ostur, skinka, líter af jógúrti, kartöflur, kjöt og eitthvað fleira. Þetta var bara kæliboxið fyrir 3 í 2 nætur. Heill kassi var líka með matvöru enda dugar ekkert minna en 2 pólókex ásamt 7 öðrum tegundum af kexi, snakki, nammi, 2 heil samlokubrauð, 20 pylsubrauð já og auðvitað plús þessi 5 sem ég keipti fyrir gullprinsinn þar sem þessi sem með voru í för voru ekki nógu góð. Við þetta bættust 3 troðnir bónuspokar (sko þessir fjölnota) af gosi og meira af nammi og einhverju. Jebb meiri hlutinn fór aftur með okkur heim. Ég þykist ætla að læra af þessu og muna að taka minna í næstu ferð en það vita það allir að þetta er eitt af því sem ég er fljót að gleyma og eftir næstu útilegu verð ég aftur jafn hissa á öllum matnum sem fer aftur til baka og lofa sjálfri mér að ég muni læra í þetta skiptið.

 

                                E  N  M  I  T  T

 

Við enduðum ferðina á að kíkja í sund í lauginni á Stokkseryi. Þetta er lítil og sæt laug, alveg svona ekta sveitalaug. Engin djúp laug en 2 alvöru heitir pottar og ein svona heit buslulaug. Lítil rennibraut er í laugina sem er eins og tröllvaxin venjuleg rennibraut á leikvöllum. Auðvitað prufaði ég að renna mér í henni eftir körfuboltakeppni, grísinn í miðjunni og busl leikir í tonna tali. 

 

En það sem er eiginlega besta við þessa laug er að þegar komið er útí er þér fært kaffibolli. Hversu mikil snilld er það. 

Auðvitað fór ég í bikiníi í laugina og er ég orðin harðákveðin í því að bikiní er fyrir sumarsundferðir en sundbolir fyrir vetrarsundferðir og þetta verður auðveldara með hverri ferðinni.

 

En ég mæli eindregið með að kíkja þarna. Stutt að fara ef þið eruð á suðurlandinu og ódýrt. 

Tjaldsvæði kostar 1000 kr. á mann per nótt og frítt fyrir 12 ára og yngri

 

Næsta færsla verður svo um hversu fróð eða ófróð ég er um mitt eigið landembarassed Ég ætti að skammast mín

 

En alla vega það styttist í sundferðina miklu og ég er farin að hlakka til að hitta ykkur öll.

 

Endilega líkið og deilið 

 

knús, kossar og frjálsir og fagrir kroppar

Bryndís 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband