Ég er á lífi

Já kæru vinir ég er á lífi en hef verið upptekin við að byggja mig upp og vinna með þau vandamál sem verið hafa að hrjá okkur hér í litlu íbúðinni minni í Árbænum.

Hárið vex alveg eins og enginn sé morgundagurinn og ég er sko búin að fara 1 sinni í klippingu. Núna stendur það bara út í loftið og hefur ekki náð að ákveða sig hvort að það ætli að vera slétt eða krullað. Ég hef gert ýmislegt til að hjálpa hárinu að vaxa, þykkna og verða heilbryggt á ný. Fyrsta þá er ég að dæla í mig Hairburst, Sugarbear hair og D vítamíni (en D vítamín skortur getur orsakað hárlos) Einnig hef ég verið að hanga á Pinterest og finna alls konar náttúrulegar leiðir sem eiga að láta hárið vaxa eins og enginn sé morgundagurinn, verða þykkara en fax á hesti og heilbrygðara en allt. 

 

Já sumt er kanski ekki eitthvað sem fólk væri til að troða á skallann á sér en ég er til í að gera hvað sem er til að strýið á hausnum á mér breytist úr kóngulóarvef i þykkan makka.

 

Það sem ég hef notað er 

1. Laxerolía, hunang og egg. Þetta hrærði ég saman og gluðaði í hausinn á mér, skellti á mig fagurbleika sturtuhettu og handklæði og var svoleiðis í minnst klt. 3 í viku. Hundarnir sem ég var að passa fanst þetta æði og fattaði ég ekki strax afhverju þeir gerðu ekki annað en að sleikja á mér hálsinn og hnakkann. Já ég er svoldið treg stundum en var heilinn á mér fullur af einhverju vel klistruðu stöffu sem ég hengdi alla von mína á.

Eftir einhvern tíma var greinilega kominn vöxtur í skallablettina, já þetta virkaði (var ekki byrjuð á sykurbjörnunum eða hársprengu vítamínunum þarna)

Með hverju hárinu jókst sjálfstraustið og brosið breikkaði.

 

2. Ólífuolía eða Laxerolía.

Já ég viðurkenni það fullkomlega að ég er löt og það kom að því að ég nennti ekki að hræra egginu og olíu og hunangi saman til að skella i hausinn þannig að hrein olía var það bara. Yfirleitt gerði ég þetta á kvöldin og svar með hana um nóttina og sturtaðist um morguninn eða skellti þessu í kollinn áður en ég bar út og fór svo kanski í sturtu um hádegi. 

Virkar þetta? Ég er 100% viss um það alla vega er hárið á mér mýkra en dúnn.

 

3. Kókosolía og sítrónusafi

 

Já þetta er það nýjasta hjá mér. Þetta á ekki bara að hjálpa með faxvöxtinn heldur á þetta að breyta gráu hárunum í sitt fyrra horf. Ég er ekki með mikið grátt en að er að byrja eitt og eitt hár og ég vill ekki lita hárið núna, ætla að leyfa því að vera náttúrulegt alla vega ár. Sjáum til hvað maður gerir í Desember þegar ár er síðan ég varð skallapoppari.

hárlubbi 17. mai 2018

Ók myndir koma bara furðulega út hérna á þessu bloggi en eins og þið sjáið þá er ég með fullt af hári núna.

 

 

 

 

 

En það er ekki nóg að poppa vítamín og gluða alls konar olíum í kollinn það þarf líka að laga kollinn sjálfann. 

Það er ég búin að vera að gera líka á fullu. Með hjálp Sól sálfræði- og læknisþjónustu hef ég fengið svo mikið. Fyrst og fremst hefur Steingerður barnageðlæknir tekið okkur uppá arma sína og hjálpað svo mikið með hvernig eigi að tækla þá erfiðleika sem við erum að glíma við. Einnig hefur Bergind hjúkrunarfræðingur unnið kraftaverk enda ótrúlega yndisleg manneskja en þær komu mér inn hjá Geðlækni sem heitir Sigurlaug. Við erum búnar að vera að vinna með kvíðann, þunglyndið og ofvirknina hjá mér. 

 

Ekki það að fara til Geðlæknis er eins og að láta fjarlægja botnlangann úr sér ódeyfður þetta er svo dýrt en samt ódýrara en að fara til sálfræðings. Verst að núna get ég ekki notað afsökuna um skókaupin sem ég hef nýtt mér í mörg ár en hún er að ég þurfi að kaupa mér skó þar sem ég er þunglyndur kvenmaður og þeir eru ódýrari en að fara til sálfræðings :)

Iss ég finn einhverja aðra afsökun....

 

En til að taka þetta alveg alla leið þá erum við að fá stuðning heim en þá kemur kona frá þjónustumiðstöðinni og hjálpar okkur prinsinum að tækla þær hindranir sem verða í vegi okkar. Hún gefur okkur báðum ráð um hvernig hægt sé að gera hitt og þetta, eins og skólann og verkefni sem þarf að gera hér heima. Og já hún Hulda er snillingur að finna einfaldar lausnir og svo opin og glöð og besta er að Jóhannes er að fíla hana í tætlur og knúsar hana í tætlur þegar hún kemur. 

 

Ásamt þvi að fá gríðarlega hjálp frá fagaðilum þá má ég ekki gleyma fjölskyldunni minni og vinum sem hafa reynt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hjálpa mér og styðja og styrkja

 

Ég er svo rík af frábæru fólki sem vill allt fyrir mig gera og svo er ég svo heppin að hafa Guð í hjarta mínu og er hann mín styrkasta stoð og ég geri allt til að halda mig fast við hann því þar fæ ég huggun, hjálp og blessanir. 

 

En núna ætla ég að fara að elda eitthvað hollt og gott enda er mörbræðslan í fullu fjöri hér. Markmiðið er að vera í stærð 12-14 í endaðan júní en ég er í stærð 14-16 í dag.....

 

En knús kossar og ást til ykkar

 

Læt fylgja nokkrar vaxtamyndir og nona að þær koma nú rétt inn og alveg....5.12 og 5.02


smokey fín dramatic green eye look

Nýklippt og fínSamkomufín smokey


Gjörgæsla

Kæru vinir

Í dag er ég kominn í gjörgæslu. Ég hef verið að berjast við þunglyndi og kvíða í mörg ár og ég ákvað að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég gæti þetta ekki ein lengur. Ég kallaði til fjölskylduna og svo hef ég verið að segja vinunum að ég er alveg búin, orðin svo þunglynd og kvíðin að það er orðið hættulegt. Ekki samt í þeim skilningi að ég sé að fara að skaða mig á einhvern hátt heldur er ég algjörlega sinnulaus, hef ekki ángju af hlutunum, græt stanslaust og geri ekki neitt, ekki einu sinni það sem mér finnst skemmtilegt. Þar sem ég hef verið að taka til í mataræðinu og vill ekki fara í það að borða tilfinningar minar hef ég brugðið á það ráð að versla eins og enginn sé morgundagurinn. Hvað er ég að versla hummmm dót og drasl sem ég hef engin not fyrir. Það er svo auðvelt að sitja heima með símann sinn og pannta á ali eða ebay, maður þarf ekki að fara einu sinni út úr húsi. Að versla gefur mér stundargleði sem endar svo í því að ég fæ kvíðakast um hvernig ég eigi að borga svo brúsann. Ég reyni alltaf að sjá björtu hliðarnar á málinu og yfirleitt er stutt í brosið en það er búið að vera svo erfitt að gera þetta tvennt. Það er eins og það hangi lóð í sitthvoru munnvikinu og ég gangi um með sólgleraugu í myrkrinu og sé ekki neitt.

Ég er greind með alvarlega geðlægð og kvíða en ég er líka að glíma við eitthvað sem kreistir, kremur og mölbrýtur hjarta mitt.

 

Sonur minn sem ég er svo heppin að eiga á nefninlega við sín vandamál að stríða líka. Hann er svo fallegur og duglegur, góður og hjálpsamur, hefur mikla samkennd og elskar mömmu sína svo mikið. Það er ekkert í þessum heimi sem ég elska meira en þessa manneskju og ég myndi hiklaust deyja fyrir hann með gleði. Að sjá þessa mannveru í fyrsta skipti var ótrúlegasta tilfinning í heimi, þið sem hafið upplifað þessa tilfinningu skiljið hvað ég meina.

 

Fallegi Jóhannes

En litla fullkomna mannveran mín glímir við ýmislegt. Fyrir utan það að vera kominn á unglingsaldurinn þá er hann líka greindur með ADHD, ódæmigerða einhverfu, Aspergers heilkenni, þunglyndi, kvíða, mótþróaþrjóskuröskun, lesblindur með námserfiðleika og þráhyggju á háu stigi. Þegar hann tekur út reiðiköstin sín þá verður hann ofbeldisfullur, brýtur hluti, ræðst á mig og er alveg trilltur, í raun eins og allt önnur persona heldur en hann er. Þegar hann róast tekur ekkert betra við því þá fer hann í niðurrif. Hann rakkar sjálfan sig niður, talar um að skaða sig, að lífið yrði betra án hans og hvað hann sé vond manneskja. Já hann hefur reynt að skaða sjálfan sig en ekki tekist að gera nógu mikið til að bugl taki því alvarlega eða réttara sagt þá getur bugl ekkert gert þar sem það vantar fjármagn til að aðstoða þessi börn og þeir sem eru í alvarlegustu málunum verða að ganga fyrir skiljanlega.

Uppá síðkastið hefur hann tekið uppá því að skrópa í skólanum. Hann er  að mæta illa og seint  og það getur verið þrautinni þyngri að koma honum á fætur og að sjálfsögðu neitar hann alfarið að læra heima.

Þegar ég kem honum í skólann er ég svo sjúklega ánægð og stollt en á sama tíma er ég að hugsa hvort hann hagi sér vel og hvort hann sé að mæta í alla tíma, verður hringt í mig af því að hann gerði eitthvað af sér og svo framveigis.  Einnig fæ ég kvíðakast yfir því að það styttist alltaf meira og meira í að hann komi heim úr skólanum og stundum er ég bara ekki alveg að geta það. Við þetta kemur svo upp samviskubit því hvers konar mamma er ég.  Þetta eykur á kvíðann og þunglyndið og við erum kominn í hring með þetta allt. Ég er farin  að missa hárið af áhyggjum og er svo með rosalegar áhyggjur af því að ég sé að missa hárið. Já ég er með sjúklega útlitskomplexa ég er venjuleg kona og hvað hefur maður heyrt? “Hár er höfuðpríði” Ég hef alltaf verið með fíngert hár en núna er það orðið þunnt og ég komin með skallabletti. Þegar ég þvæ hárið þá kemur ógrynni af hári í lófann á mér. Ég er búin að prufa næstum öll húsráð til að stoppa þetta en það er eins og ekkert virki.

Þynning á hárihár hlið

 

 

 

 

 

Svona lítur hárið út og þetta kemur eftir hverja sturtuferð

Hár eftir 1 hárþvott

Hár 4

 

 

 

 

 

 

Að verða lokuð inná geðdeild hljómar svakalega lokkandi. Að komast úr aðstæðum og þurfa ekki að gera neitt. Ég get ekki farið til útlanda því þá VERÐ ég að versla og skoða og græja og gera og ég get það ekki núna. Ég er svo þreitt og þjökuð og ég nenni þessu ekki, langar ekki, vil ekki. Ég sit ekki heima og vorkenni mér heldur er ég voða dugleg að rakka mig niður. Ég meina ég gæti alveg gert þetta, vá hvað ég er nú löt og sjúklegur sóði og ómöguleg og hversu ömurleg mamma ég er því að pottþétt myndu allar aðrar mömmur gera miklu betur og bla bla bla. Ég er minn versti óvinur. Eins og ég sagði í byrjun þá er ég greind með alvarlega geðlægð og ég tek mínar dífur en núna hef ég verið svo lengi niðri og farið svo neðar og neðar og neðar.

En núna skal ég upp. Ég verð að gera það ef ég ætla að standa mig barnsins vegna. Við erum svo heppin að þegar Jóhannes var lítill komst hann að hjá barnageðlækni sem heitir Steingerður og hún er algjör snillingur. Ég var einmitt í viðtali hjá henni og hjúkrunarfræðingi sem heitir Berglind þegar ég sprakka og hágrenjaði um hjálp. Þær fóru strax í málið. Ég er núna í vikulegum viðtölum uppá Sól (læknastofa fyrir börn, unglinga og fjölskyldur) hjá henni Berglindi þangað til að ég fæ minn eigin geðlækni en hann verður ekki laus fyrr en eftir áramót. Á stofunni  er starfandi námsráðgjafi sem ég er búin að tala við og hún ætlar að díla alveg við skólann og setja upp nýtt plan sem hentar syni mínum.

Ég er búin að senda póst á heimilislækninn minn um stöðuna og einmitt búin að tala við fjölskyldu og vini og núna ykkur ,,Ég get þetta ekki ein”

 

Ég skal finna sólina í hjartanu aftur og vera með söng á vörum og já eina leiðin er upp!!!

Andleg veikindi eru svo miklu erfiðari en líkamleg en ég hef í gegnum tíðina verið að glíma við bæði. Skilningur og úrræði eru svo miklu meiri og betri þegar um líkamleg vandamál er verið að ræða. Að vera andlega veikur er eins og að vera alltaf dauðadrukkinn. Þú gerir eins og þú getur að ganga beina línu en það er ógjörningur, þannig er  að vera með kvíða og þunglyndi, hinir einföldustu hlutir eins og að klæða sig á morgnanna getur verið þrautinni þyngri. Þú missir alla stjórn og ert eins og lamaður

 

Núna hef ég náð botninum en með hjálp fólksins í kringum mig og Guði mun ég klífa upp á toppinn, ég mun sigrast á þessu.

 

ÉG GET ÉG SKAL ÉG ÆTLA!

Þangað til síðar

Hamingja og gleði

Bryndís

 

 

 

 

Nýjar fréttir

Fór til læknis og jú við erum sammála um að hármissirinn sé út af álagi. Ég fór samt í blóðprufu í morgun til að útiloka allt annað. Og ég tók þá ákvörðun að raka hárið af…. Já það var ógeð erfitt en ég rokka þetta 😊

Binga skalliHanakamburFlott með klút, rós að framan


Næringaríkt namminámskeið

Hæ hæ yndisfögru vinir

heilsumamman.com Nammiuppskriftarbæklingur

Mig langaði að segja ykkur frá námskeiði sem ég fór á um daginn.

Ég ásamt systur minni fórum á namminámskeið uppí Spíru hjá henni Oddrúnu heilsumömmu og drógum vð múttu með.

Mamma var nú ekkert að nenna fyrst og setningar eins og „Nammi, ég borða aldrei svoleiðis“ og  „Öjjjjj hnetur mér finnst þær viðbjóður“ fuku út úr munni gömlu en með okkur skyldi hún koma og viti menn á endanum var hún þvílíkt að skemmta sér

Þegar við mættum (ég seint eins og vanalega. Það er eins og ég geti ekki fyrir mitt líf mætt neitt á réttum tíma, alveg óþolandi) beið eftir okkur jarðarberja múslí með ferskum bláberjum og chiafræjum á borðinu. Ég veit ekki hvort að það var út af því að ég var ótrúlega svöng eða hvað en vááááááá hvað þetta var gott.

 Jarðarberjamúslíchiagrautur

 

 

 

 

 

 

Oddrún byrjaði að spjalla um hvað við ætluðum að gera, um nammið og að það sem er hollt getur líka verið mjög gott. Hún þurfti nú líka að bæta því við að þótt að þetta væri heilsunammi þá væri það stútfullt af hitaeiningum (gat nú verið, óþolandi svoleiðis hlutir)og ekki ráðlagt að gúffa í sig stútfullum poka

Minn hópur byrjaði á að tempra súkkulaði sem er eitthvað rosalega merkilegt en ég lét mér nægja að heyra orðið súkkulaði og þá var ég seld og steingleymdi öllu öðru. Ég er pínulítið eins og Homer Simpson nema að það glimur ekki orðið DONAT í hausnum á mér heldur SÚÚÚÚÚÚÚKKKKKULAÐÐÐÐÐÐÐÐÐÐÐÐÐÐIIIIIII UMMMMMMMMMMMMMMMMMM. Við áttum eftir að súkkulaðihúða marsipankúlur en þar sem við vorum ekki með neitt svoleiðis þá húðuðum við bara jarðarber í staðin og enduðum svo aftur í súkkulaðinu þar sem við lukum starfi okkar í húðun.

Næsta stöð var karamellukex og aftur úffffffff nammi nammi gott. Næst komu það lakkríssúkkulaði með möndlum og gerðum við með og án möndlusmjörs. Þá var komið að marsipaninu en ég elska marsipan næstum jafn mikið og barnið mitt. Á marsipanstöðinni gerðum við gráfíkjukonfekt og hindberjakonfekt sem við enduðum svo með að súkkulaðihúða og skreita með hindberjakökuskrauti og kókos. Allt gekk svo smurt og vel fyrir sig og stjórnaði Oddrún eins og snillingurinn sem hún er.

Mamma karamellaheilsumamman 4

 

 

 

 

 

 

Eftir að búið var að gera allt gúmmilaðið fengum við okkur sæti og fengum allar smakk á meðan útskýrt var fyrir okkur sykurstuðullinn og annað skemmtilegt og fróðlegt. Með þessu ljúfmeti var dreypt á lífrænu rauðvíni en þetta var með því allra besta víni sem ég hef á ævinni bragðað og er ekki annað hægt að segja en að það hafi runnið ljúflega niður. Í lok námskeiðisins fengum við allar nammipoka með heim, svona smakk. Trúið mér að þessi smakkpoki kláraðist hratt, bara uppí munn og oní maga jummm jummmm. Ekki var ég að tíma að fara að gefa með mér, glætan.... Gestirnir geta bara borðað nammið sem ég versla í bónus fyrir það en þetta var algjörlega MY PRESSJÖSS!!!Heilsumamman rauðvín

 

 

 

 

 

 

Mikið hlakka ég til að gera allar uppskriftirnar heima en við fengum hefti með okkur heim ásamt því að fá senda dásamlega jummjummbók í tölvupósti. Ég mæli svo virkilega með námskeiði hjá henni og ég er bókað að fara aftur og læra meira.

 

Kveðja úr sælgætislandi

Bryndís Steinunn

 

p.s sorry með myndirnar, bloggið vill ekki leyfa mér að snúa þeim rétt. Reyni að laga þetta seinna en alla vega eins og er verður þetta bara svona

 


Glímt við vandamál 2 af 3

 

 

Jæja vá hvað ég er ekki að standa mig hér.

 

En ég var búin að lofa mér að skrifa um Stígamót og hvað þau samtök hafa gert fyrir mig en þau áttu afmæli 8. Mars síðastliðin

 

Þau voru einmitt nýlega búin að opna þegar ég kom þangað í fyrsta sinn, hrædd og rosalega feimin. Stígamót voru staðsett niður í bæ í sama húsi og Fríða Frænka og ég man eftir að hafa farið þangað með mömmu. Við þurftum að labba næstum bakvið húsið að tröppum sem  lágu upp að dyrunum og þessar tröppur virtust endalausar og auðvitað fannst mér allir í heiminum vera að horfa á þetta hræ sem dröslaðist á eftir mömmu sinni. Þegar inn var komið blöstu við okkur fleiri tröppur en við komumst á endanum á áfangastað. Þar tók á móti okkur yndæl kona sem ég man ekkert hvað heitir enda man ég ekkert hvað var talað um eða hvort að ég sagði eitthvað yfir höfuð. Man bara að ég hafi horft á alla bangsana sem voru þarna. Einn var svo stór og mig langaði bara að henda mér í hruguna, kúra hjá þeim og gleyma að ég væri þarna, gleyma öllu, vera bara barn en auðvitað sat ég kjurr og stillt og prúð því ég var nú nýorðin 14 ára og alveg að fara að fermast, næstum því komin í fullorðinstölu. Þarna lærði ég margt um sjálfa mig og tilfinningar sem voru eðlilegar bæði líkamlega og andlega. Það er eðlilegt að vera sár og reiður og hræddur og leiður og glaður og ruglaður. Þetta eru allt tilfinningar sem eru eðlilegar hjá barni sem í raun hefur verið sett í stöðu sem er óeðlileg. Það er ekkert eðlilegt við það að sá sem á að ábyrgjast öryggi barns skuli vera sá sem brýtur það, það er ekkert eðlilegt við það að fullorðinn gera hluti sem maður veit að eru sjúklegir og rangir í alla staði. Þegar maður hefur lennt í því sem barn að brotið er á manni á þennan hátt vitandi að þetta sé rangt en halda það samt að þetta hljóti að vera í lagi því að hann er jú fullorðinn og þú ert bara barn sem veist ekki betur þá er ekki skrítið að maður efist um sjálfan sig og tilfinningar sínar. Þú ert stannslaust í togstreitu um að vita og halda og þetta endar í einum hrærigraut þar sem allt er á gráu svæði. Þegar þú hefur líka ekki alist upp við það tilfinningalega öryggi sem börn eiga að finna þá veistu líka ekkert hvernig það er að tengjast öðrum tilfinningalega rétt. Ég er ótrúlega óþroskuð þegar það kemur að tilfinningum mínum til karlmanna og í raun og veru kann ég bara ekkert á þá og skil þá ekki. Stundum vildi ég óska þess að allir karlmenn væru giftir því þá er þessi pressa ekki til staðar, þeir eru ekki á markaðinum.

 

En aftur að Stígamótum. Í mörg ár fór ég niður eftir viku eftir viku og ræddi við stuðningsfulltrúann sem mér var úthlutaður hverju sinni. Ég tók tíma þar sem ég var dugleg og mætti í hverri einustu viku og svo tók ég mér frí í einhvern tíma og stundum lengri.

Fyrir um 10 árum hafði ég aftur samband og fór þá í hópatíma með nokkrum öðrum dásamlegum konum sem allar höfðu það sameiginlegt að einhver hefði brotið á þeim þegar þær voru börn. Einni var meira að segja talið trú um það af brotamanninninum að hún væri ástfangin af honum og vildi þetta. Já þeir eru slungnir. Þeir kunna að koma allri ábyrgð yfir á brotaþola. „Sjáðu hvað þú hefur látið mig gera?“   „Ég elska þig svo mikið og get ekki lifað án þín en við þurfum bara að bíða í 4 ár í viðbót og þá getum við gift okkur en þangað til þú verður 18 verður þú að þegja og þetta er okkar leyndarmál“. „Ef þú segir mömmu þinni þá á hún eftir að verða svo reið út í þig, eða sár því að þú veist að það má ekki gera svona hluti sem þú hefur látið pabba gera“

 

Já þetta er ógeðslegt að svona skuli vera til en þetta er raunveruleiki fyrir allt of marga. Það eru líka enn að finnast fordómar í sambandi við þessi mál og þá sérstaklega nauðganir.

Alltof oft fær maður að heyra setningar eins og „æjjj var hún ekki bara aðeins of drukkin“ eða „Klæðnaðurinn á þessum stúlkum í dag“

 

Já það er alveg satt auðvitað getum við gert ráðstafanir í öllu. Við ættum að passa okkur á að verða ekki of drukkin, ekki til að varna nauðgun heldur bara það að verða of drukkinn er óhollt fyrir okkur, við gætum líka dottið og slasað okkur. Við ættum líka að klæða okkur vel áður en við förum út í frost og kulda til að passa uppá að verða ekki lasin.

 

Ég er líka sammála að föt sem stelpur eru oft í eru líkari belti og axlaböndum en pilsi og bol og finnst oft þessi klæðnaður meira sæma sig sem undirföt en ekki venjuleg föt en kanski er ég bara orðin gömul og hallærisleg.

 

En gleymum því aldrei að nauðgun á aldrei rétt á sér. Hvernig sem stelpa eða strákur klæða sig eða í hvaða ástandi sem manneskjan er í þá er ekkert sem réttlætir það að ráðast á aðra manneskju og brjóta á henni.

 

Annað er að stundum er þetta „annarlega ástand“ sem manneskjan er í eitthvað sem hún var sett í án hennar vitundar. Það er víst ótrúlega auðvelt að búa til smjörsýru og er hægt að finna það bara á netinu með því að googla það. Hlutirnir sem notaðir eru til að gera svona viðbjóð er hægt að finna í næstu Bónus verslun það er að segja ef þú finnur þetta ekki allt heim hjá þér.

Það skiptir engu máli hvort manneskjan sé í góðu formi, vön að drekka,  eða er yfir höfuð að drekka hún verður alveg út úr því.

Fyrir nokkru síðan ákvað Sölvi Tryggvason þáttastjórnandi að prufa þetta lyf og ath. áhrifin af þeim og hann mundi varla kennitöluna sína. Hægt er að sjá þáttinn hér http://menn.is/solvi-tryggva-naudgunarlyf-i-midbaenum-mun-algengari-en-folk-heldur/

Einnig heyrði ég um konu sem hafði farið í atvinnuviðtal (erlendis) og fékk kaffibolla. Næsta sem hún man eftir er að ranka við sér  þar sem henni er hópnauðgað. Henni tekst einhvernveginn að flýja og mun aldrei lifa eðlilegu lífi eftir þetta, sérstaklega þar sem allt var tekið upp á myndband og sett á netið þar sem aðrir sjúkir einstaklingar geta skemmt sér við að horfa á þennan viðbjóð.

 

Já Stígamót, Blátt áfram, Drekaslóð og fleiri staðir hafa verið eins og vin í eyðimörk fyrir marga og verð ég alltaf þakklát í hjartanu þegar ég  heyri um þessa staði eða sé þá.  Því miður þurfum við á þeim að halda en sem betur fer eru þeir til. Þessir staðir hafa barist fyrir viðurkenningu ofbeldisins að þetta sé ekki bara í hugarheimi kvenna eins og stóð í ÍSLENSKRI KENNSLUBÓK FYRIR GEÐLÆKNA fyrir um 50 árum síðan. 50 ár er langur tími en ef þú spáir í það þá var þetta bara í kringum 1960-1970.

Já við höfum komist langt á þessum 27 árum frá því að Stígamót var opnað en á móti hefur illskan í heiminum aukist og fleiri leiðir til að brjóta á öðrum einstaklingi hafa fundist upp. Við þurfum því að halda áfram á móti að vera dugleg að tala þessa hluti í hel því að í þögninni felur ofbeldið sig. Gleymum því heldur ekki að sama hvort að þetta gerðist í gær, fyrir 10, 20, 30 árum já alla ævina heldur ofbeldið áfram í formi þess að fórnarlambið viðheldur því með öllum sínum efasemdum um sjálfan sig og hvað ef og bara ef.....  Þetta er vinna sem að er aldrei búin, þú ert aldrei útskrifaður. Hlutirnir skána og stundum er lífið alveg frábært að sjálfsögðu og flestir læra að lifa eðlilegu lífi aftur en fallega húsið sem býður uppá hjálpina sem þú þarft og fordómaleysið verður jafnnauðsynlegur og sjúkrahúsið. Þú þarft ekki að vera þar stanslaust alla ævi en þú gætir þurft á því að halda og þá er nú aldeilis gott að geta leytað til þeirra.

 

Heimasíða Stígamóta er

https://www.stigamot.is/

Einnig er hægt að styrkja samtökin með því að fara hér inn

https://www.stigamot.is/is/styrktartengill

Vonandi þarft þú lesandi góður aldrei að upplifa það að verða fyrir ofbeldi sem þessu eða einhver sem þér er nákominn en líkurnar á því að þú þekkir einhvern sem jafnvel glímir við afleyðingar ofbeldisins akkúrat núna eru töluverðar.

 

Höldum áfram að þykja vænt um hvort annað og verum góð við hvort annað.

Knús úr Árbænum gamla

Bryndís Steinunn


Glímt við vandamálin 1 af 3

Síðustu dagar hafa verið tileinkaðir málefnum sem ég þekki vel. Þessir hlutir er dagur Endometriosu, afmæli Stígamóta og minning sem poppaði upp á facebook í sambandi við Robin Williams sem að vísu var birt fyrst 2. júní 2015 á síðu Daveswordsofwisdom.com

Mig langar til að taka mér tíma og skrifa um mína reynslu af þessu þrennu og ég ætla að gera það í sitthvorri færslunni því annars verður þetta endalaus bók og hlutir sem skipta máli gleymast frekar og týnast í röfli. Well ég ætla að byrja á Endómetríósu og minni upplifun af henni.

Já það er rétt, ég hef barist við Endómetríósu eða legslímuflakk frá því að ég fékk mínar fyrstu blæðingar árið 1989. Ég skildi ekki og hef ennþá daginn í dag ekki skilið þegar sagt er TIL HAMINGJU. Hvað var svona æðislegt að vera byrjuð á túr. Það er ekki bara að þér blæði heldur kvalirnar. Fyrsta skiptið var óþægilegt en versnaði svo við hverjar blæðingar. Ég man eftir að liggja grenjandi á baðherbergisgólfinu, búin að æla út af verkjum, haldandi um kviðinn og í raun bíða eftir að næstu dagar myndu líða hratt, byðjandi fyrir því að fá að sofa alla vega smá. Á milli blæðinga var ég alltaf kvíðin fyrir næstu blæðingum því ég vissi aldrei hversu slæmar þær yrðu. Í kaupbæti fékk ég líka eitthvað sem kallast fjölblöðruheilkenni eða PCOS. Það lýsir sér þannig að blöðrur myndast á eggjastokkana sem eru fullar af vökva og stundum blóði. Í báðum tilfellum var ég tíður gestur á kvennadeildina, hjá kvennsjúkdómalækni og niðrá slysó þar sem kvalirnar voru stundum svo hrikalegar að það leið yfir mig og lá ég kanski hálf meðvitundarlaus á gólfinu búin að kasta upp. Þegar ég var 17 ára kom upp einmitt mjög alvarlegt tilfelli. Mamma hringdi í læknavaktina og var læknir sendur heim til okkar. Sá læknir var alveg með það á hreinu að botlanginn væri að springa hjá mér og sendi eftir sjúkrabíl og var ég send með hraði niður á Borgarspítala. Þeir sem tóku við mér þar voru nú ekki sammála því að þetta væri botnlanginn þar sem ég væri nú ekki með hita (en ég hef aðeins einu sinni á ævinni fengið hita sem var meiri en 37,5). Uppá spítala var ákveðið að dæla  í mig verkjalyfjum og sjá svo til. Eftir 2 daga var ég svo send heim en daginn eftir ef mig minnir rétt var ég aftur komin uppá spítala með mun meiri kvalir enda orðin dóplaus ef svo má að orði komast. Ákveðið var að halda mér yfir nótt en ég var svo send heim með pillur í farteskinu enda var komin helgi og ekki hægt að hafa stelpukjána inná spítala yfir helgi. Helgin leið og man ég lítið eftir henni enda lá ég í rúminu allan tímann og grenjaði. Grenjaði úr verkjum, grenjaði yfir skilningsleysi, grenjaði yfir því að kanski væri ég bara ímyndunnarveik, grenjaði úr hræðslu því ég hélt að ég væri að fara að deyja. Helgin leið og ég var enn sárkvalin. Ákveðið var að ég yrði heima á mánudeginum en á þriðjudeginum ákvað ég að bíta á jaxlinn, þar sem ekkert var að mér hvort eð og ég dreif mig í skólann. Fyrsti tíminn var félagsfræði þar sat ég með tárin í augunum í keng, kófsveitt af verkjum. Kennarinn minn sem þolir ekki aumingjaskap kom að endingu til mín og sagði mér að fara heim ég væri greinilega sárlasin. Ég tók því dótið mitt og rölti niður í strætóskýli til að fara heim. Þegar leið 15 kom sem ég tók alltaf heim í Frostafoldina, fattaði ég að ég var ekki með græna kortið mitt, ég hafði lánað vinkonu minni það þar sem ég var hvort eð er búin að vera lasin. Ég ákvað þá að labba úr Ármúlanum alla leið niður á laugarveg þar sem Emmessís var staðsett á þessum tíma en mamma var að vinna þar. Þegar þangað var komið var ég alveg búin með allt, orkuna, styrkinn já ég var búin með allt. Ég hrundi niður og hágrét um leið og ég sá mömmu því ég vissi að hún myndi bjarga mér. Mamma hljóp upp til yfirmannsins og lét hann vita að hún þyrfti að fara með mig aftur uppá spítala og út í bíl var svo farið. Þegar við komum uppá Borgarspítala eina ferðina en var ég sett inní eitthvað skoðunarherbergi ýmislegt gert við mig til að ath. hvort um botnlangan hafi verið að ræða. En þegar læknirinn fer fram eftir skoðun hittir hann greinilega kolleiga sinn og mamma heyrir hann segja „æjjjj hún er bara með einhverja smá magapínu, við sendum hana heim í kvöld eða á morgun“ EHHHHHHH verð bara að segja greyið gaurinn því mamma TRILLTIST, TJÚLLAÐIST, VARÐ ANDSETINN af reiði. Konan missti sig á læknagreyinu sem endaði á að ákveðið var að spegla kviðarholið í mér. Ég var undirbúin undir örlitla aðgerð sem ætti að taka örskotstund og ég myndi vakna inná herbergi.  En raunin varð önnur. Eftir sex og hálfa klukkustundar aðgerð var mér rúllað inná gjörgæslu með risa skurð hægramegin á kviðnum, öll í slöngum með allskonar kokteilum eins og morfíni, saltvatni og blóði, tengd í öndunarvél og hjartalínurit. Það sem kom í ljós í spegluninni var blaðra á hægri eggjastokki sem var eins og barnshöfuð á stærð, full af blóði og vökva. Það besta var að rifa var á blöðrunni og var kviðarholið orðið fullt af blóði, mér að blæða út innvortis og hefði ég ekki lifað af nóttina hefði mamma ekki tekið trylling á slysó. Þumlar upp fyrir múttu

Ég lá nú ekki lengi inná gjörgæslu en ég var færð um morguninn inná vöknun og þaðan inná deild (er mér sagt, man næstum ekkert). Ég fékk ekki nema 2 ltr af blóði en það er það sem ég man eftir því ég missti mig og öskraði hástöfum „ÉG FÆ AIDS, ÞIÐ ERUÐ AÐ SMITA MIG AF AIDS“ Já ekki mín stolltasta stund en mér til varnaðar þá var ég útúrkexdópuð af læknadópi. Ég var mjög stutt inná á spítala var hennt heim liggur við áður en að síðasti saumurinn var skelltur í kjélluna.  Næstu dagar voru virkilega erfiðir þar sem að líkami minn hafnaði blóðinu (en margir gleyma því að blóð er líffæri eins og hjarta, lungu já og húðin okkar) Ég var veik, virkilega veik. Fyrst og eina skiptið sem ég hef fengið hita á æfinni en ég rauk upp í 40,7 og þarna á stuttum tíma var mér ekki hugað líf tvisar sinnum út af sama hlutnum „TÚRVERKJUM“

Þetta ár fékk ég að vita að líkurnar á því að ég myndi eignast barn væru litlar sem engar en ég harðneitaði að trúa því enda þráði ég það heitt að fá að verða eiginkona og móðir, draumur sem ég var búin að eiga............... Alltaf.

Árin liðu og í hverjum einasta mánuði kom gamallkunnur vinur í heimsókn sem ég hataði svo mikið og hann kom ekki bara þegar blæðingar voru því hann heimsótti mig líka alltaf þegar ég var með egglos eða að verpa eins og ég kallaði það.

Margar konur sögðu við mig að þetta myndi lagast ef ég myndi eignast barn, bara svona af því að það er svo lítið mál. Bara vúps ég er ólétt... Aðrar sögðu hvað tekurðu ekki bara paratabs eða trio og harkar svo bara af þér? Karlmenn ranghvolfðu í sér augunum og hugsuðu að þetta væri afsökun til að taka út veikindadaga. Fordómarnir voru endalausir. En ferðirnar niður á kvennadeild urðu ekkert færri þar sem ég fékk yfirleitt morfín og var svo hennt heim. Ég var búin að reyna allt. Var sett á pilluna 14 ára og alls konar lyf til að sporna við verkjunum en ekkert virkaði. Segja má að ég hafi verið orðin uppgefin á líkama og sál þegar kraftaverk gerðist. Ég varð ófrísk. Ég var sko ekki að trúa því og vá hvað ég var hrædd alla meðgönguna að ég myndi missa fóstrið og vá hvað ég var óþolandi og sjúklega leiðinleg ólétt kona. Þegar leið að fæðingu eftir ofsalega erfiða meðgöngu var ég svoldið spennt að þurfa ekki að upplifa túrverki aftur en vá hvað ég varð fyrir miklum vonbryggðum. Túrverkirnir komu aftur og í kaupbæti fékk ég ofsablæðingar sem gerðu það að verkum að mér blæddi niður á hné. Allt var reynt og eitt sem reynt var var hormonalykkjan en hún á að stoppa blæðingar og gerir það að verkum að túrverkirnir koma ekki. Ehhhhhh heldur betur ekki. Í stað þess að blæða næstum út þá minnkuðu blæðingarnar og ég var ekki nema kanski 25-27 daga á blæðingum í stað þess að vera 30-31 dag. Já frí á milli blæðinga fór í 5-7 daga úr 1-2, já og mér blæddi ekki eins mikið. Ég var stannslaust hjá kvennsa og nei það er ekkert spennandi, það er meira niðurlægjandi, óþægilegt, vont það er ekkert við þetta sem segir við mann hey endilega komdu aftur. Ég var búin að fara síðan ég var 13 ára og orðin dauðþreitt á endalausu engu fyrir utan það að vera ótrúlega kvekkt.  Enga lausn var að finna, engin svör, ekkert. Jú aðgerðir hjálpuðu í smá tíma en það var bara smá tími og mér fannst stundum ekki taka því að leggja það á mann því alltaf beið maður eftir því að horrorinn byrjaði aftur uppá nýtt og í hvert skipti leið mér eins og verkirnir væru reiðir og kæmu með fullu trukki og væru í leiðinni að hlæja að mér „Þú losnar aldrei undan okkur.“

Loksins eftir endalausa baráttu fékk ég það í gegn (með hjálp læknanna minna) að fá að fara í fullt legnám. Ég lagðist inná spítala í mai 2016 með fullt af tilfinningum í maganum. Ég var spennt og skíthrædd í einu. Þegar ég vaknaði eftir aðgerðina sem tók 3 klt. vissi ég að ég var laus, ég var loksins frjáls. Ég er enn tæplega ári síðar hissa að vera ekki liggjandi í rúminu regglulega faðmandi hitapoka og bryðjandi verkjalyf í tonnatali. Að vísu skellti ég mér á breytingaskeiðið en OMG það er svo þess virði.

Áður en þið sem skiljið ekki „túrverki“ farið að dæma hugsið út í það hvað margar konur hafa gert og eru tilbúinar til að gera til að losna við þessar vítiskvalir. Þær eru meira að segja tilbúnar til að leggjast undir hnífinn og láta taka í burtu það sem búið er að segja að geri þær að konum. Ef ég hefði vitað hvernig lífið yrði án barnaherbergis (móðurlífsins) hefði ég látið taka allt draslið um leið og ég átti yndislega kraftaverkið mitt.

Ég vona að þessi pistill minn hjálpi einhverri konu þarna úti, upplýsi einhverja að þetta er ekki eitthvað sem við leikum okkur með og hjálpi til við þá fordóma sem við endómetríosukonur og PCOS konur þurfum að díla við.

Ég vil líka minna á það að það er alls ekki auðvellt fyrir allar konur að verða barnshafandi, fyrir sumar er það jafnvel ómögulegt og þessar spurningar um hvenær eigi að koma með barn eru oft eins og rýtingur í hjartað ég alla vega þoldi þær ekki og veit um aðrar konur sem segja það sama.

Vill endilega benda á síðu Samtaka um Endómetríósu www.endo.is

 

Næst ætla ég að tala um Stígamót og hvað þau samtök þýða fyrir mig.

Þangað til hugsum þá vel um hvort annað og reynum að setja okkur í spor náungans

Knús úr Árbænum

Bryndís Steinunn

 


Gríma

Í svoldin tíma hef ég verið að taka mig í gegn og reyna að taka framförum í hinum ýmsu málum. Við svoleiðis breytingar þarf maður að fara í mikla naflaskoðun til að finna út hverju þurfi að breyta og laga. Þetta er ekki alltaf auðvelt, eiginlega er þetta bara drullu erfitt og sjúklega vont að þurfa að viðurkenna suma galla sína og horfast í augu við þá. Ég uppgötaði einn svoleiðis harkalega í síðustu viku. Það var eins og vörubíll hefði komið á fullri ferð og keyrt yfir mig og ég brotnaði  algjörlega niður.

 

Málið er að sem barn lék ég hlutverk hins fullkomna barns. Ég var fín, brosti og yfirleitt stillt. Það var bannað að sýna sitt rétta andlit því þá hefði fólk séð hversu rotið fjölskyldulífið var. En ég er ekki lengur barn og ég þarf ekki lengur að fela það ofbeldi sem ég bjó við þá. Ég er að verða 41 árs gömul. Ég á mitt eigið barn, fjölskyldulífið er gott og við erum í flesta staði hamingjusöm og heppin með allt sem við höfum. En það sem ég uppgötaði var einmitt það að ég er stanslaust í hlutverki. Ég sýni mjög sjaldan mitt rétta andlit. Ég er svona við eina manneskju og öðru vísi við aðra og karlmenn úfffffff þá höndla ég ofsalega illa og breytist ekkert smá, haga mér ótrúlega kjánalega og barnalega. Það er eins og ég viti ekki hver ég er eða er hrædd við að sýna fólki hver ég er....

 

Í mörg ár hélt ég að ef karlmaður væri góður við mig, kurteis og tillitsamur þá þýddi það bara eitt og það var sko ekki bara af því að honum langaði að vera næs eða góður. NEI hann vildi eitthvað og eins og mér var kennt þá greiddi ég í flestum tilfellum í kynlífi. Já það er það sem mér var kennt sem barni. Ég var skemmd á sálinni og er enn og það fer svo í mig að þetta virðist aldrei klárast. Ég er föst í fortíðinni, föst í litla barninu sem ég var, föst í því að vera undir endalausu ofbeldi en það sem hefur breyst er að ég viðheld því sem pabbi minn byrjaði á.

Tökum dæmi: Sem barn var mér stöðugt sagt að ég gæti aldrei, yrði aldrei o.s.fr. Í dag heyri ég fólkið sem stendur mér næst segja mér hvað ég er dugleg og hvað ég geti allt og sé klár og allur sá pakki en ég er sú sem segi mér nákvæmlega það sem mér var sagt áður. Ég hef t.d. verið dugleg að borða rétt og hreyfa mig en um leið og ég fattaði að ég væri búin að minnka um fatastærð var eins og eitthvað kæmi yfir mig og ég panikkaði, Ahhhh nei nei nei mundu þú getur aldrei komist í kjörþyngd, þú getur aldrei orðið grönn, þú getur aldrei orðið flott eða neitt annað. Og hvað gerði ég fór og keipti mér pizzu, át yfir mig af henni og skellti svo ofan í mig kanilgotti með sjúklega miklum glassúr og gos og nammi..... HVAÐ ER AÐ!!!!

Mig langar svo að læra að komast úr þessum vítahring. En það þýðir mikla vinnu og mikil átök. Ég þarf í alvörunni að þykja vænt um mig eins og ég er og trúa því að ég geti allt sem ég legg á mig að gera. Ég á alveg að þora að gera það sem ég held stundum að ég geti ekki því málið er að ég get ef ég vil.

Í 26 ár hefur mig langað til að læra förðun en aldrei þorað því. Af hverju ekki? Af þvi að öðrum gæti fundist það asnalegt, kanski á ég aldrei eftir að vinna við þetta, kanski fell ég, kanski kemst ég að því að ég er ömurleg. OG HVAÐ MEÐ ÞAÐ!!! Þá hef ég alla vega látið drauminn rætast. Og hvað með hvað öðrum finnst? Og ef ég fell þá veit ég það bara. Í haust nánar tiltekið í ágúst 21 mun ég því byrja í Reykjavík make up school og ég ætla að skemmta mér í botn. Ég veit að ég get þetta og mér mun takast það.

 

Alveg eins og þegar ég var í framhaldsskóla. Ég fór af því allir aðrir gerðu það og það er það sem maður á að gera en auðvitað hætti ég þar sem ég var alltaf með það í hausnum að ég gæti ekki og ég hafði líka ekki áhuga í raun og veru. En 33 ára tókst mér þetta. Ég skráði mig í skóla og gat klárað og mér fannst æði að útskrifast með krökkum sem voru 10-14 árum yngri en ég og vitiði hvað, þau fíluðu mig sko alveg ágætlega....

 

Þannig að núna er ég að reyna að taka niður grímuna og ætla að finna sjálfa mig. Mig langar til að vita hver ég er, hvað hef ég áhuga á (sem er ekki eitthvað sem litast af öðru fólki) Ég vil hafa mínar eigin skoðanir og ég vil standa við þær.... Ég vil vera ég alltaf. Núna mun gríman falla en ég þarf hjálp og ég þarf þolinmæði.

 

Þegar ég kem heim ætla ég að fara í alvöru meðfeð hjá geðlækni og taka fortíðina og nútíðina og framtíðina og rekja hana upp og skella henni saman aftur og ég skal ekki hætta fyrr en ég sé að hér er ég

Eitt af því sem ég hef komist að í lifinu að ef ég geri þetta svona fyrir alla, þegar ég blogga um hlutina þá hjálpar það mikið. Ég er búin að henda þessu út í atomið og þá þarf maður meira að gera hlutina...

Kveðja úr sólarríkinu Flórida

Bryndís

p.s húsið mitt er í pössun þannig að það þyðir ekkert að brjótast inn....


Þakklát framhald

Dásamlega, yndislega fólk.

 

Einhver misskilningur hefur komist á stjá með síðustu færslu minni. 

Starfsfólkið á staðnum sem verið var að ræða um síðast er FULLKOMLEGA HÆFT, ég endurtek FULLKOMLEGA HÆFT. En við vitum öll að á öllum opinberum stofnunum er alltaf sama sagan, það vantar fjármagn. Starfsfólk á Elliheimilum, ummönnunarheimilum, skólum og leikskólum, sjúkrahúsum og öðrum stöðum er undirmannað. Fólk þarf að vinna á við 2 og jafnvel fleiri og það er orðið uppgefið og þá koma mistökin. 

 

Já það eru aldrei til peningar fyrir þeim sem eru minni máttar en svo les maður (eða heyrir) um veislur sem haldnar hafa verið fyrir milljónir. Milljarðar eru settir í hitt og þetta sem maður skilur ekki alveg að sé nauðsyn eins og trilljón aðstoðarmenn alþingismanna, risnur sem eru svo himinháar að það tekur venjulega manneskju marga mánuði að vinna inn fyrir brot af upphæðinni og annað sem ég man ekki eftir. Heldur þetta lið sem stjórnar landinu að þeir eigi aldrei eftir að verða gamlir, að þeir geti aldrei lent í slysi og lamast, þurfi að leggjast inn á sjúkrahús eða eitthvað annað því um líkt? Æjjjjjj djók þeir eiga peninga til að ráða bara einkalið til að aðstoða sig eða hugsar það bara ekki lengra en 5 mínutur fram í tíman? Þetta gerir mig ÓGEÐ reiða. 

 

Það sem ég vildi koma fram með síðustu færslu er að það þarf MEIRA fjármagn til að geta fengið MEIRA af hæfu starfsfólki, ekki að það sem er fyrir sé ekki hæft, alls ekki það vantar bara að fá fleiri til að vinna þessi verk. Fólkið sem vinnur þessa vinnu fer bráðlega að brenna út og endar þá á að þurfa að fara á endurhæfingu og eitthvað kostar það. Ég þekki konu sem vinnur á leikskóla og hún sagði mér að hún væri orðin svo búin á því á líkama og sál að hún hefur ekki orku að gera meira eftir að hún er búin að vinna. Hún hefur ekki orku til að hugsa um heimili. Matur er yfirleitt snarl, súpur og núðlur því hún hefur ekki þrek til að gera meir. ÞETTA ER ÞAÐ SEM ER AÐ OG ÞETTA ER ALLS EKKI Í LAGI!!!

 

Við vitum öll hvernig það er að vera þreittur og veikur. Maður verður kærulausari og hættir til að vera svoldið glæfralegur í þvi sem maður er að gera. Er ekki talað um að það sé hættulegra að keyra þreittur en fullur hvað með þá að vinna ábyrgðarstarf? Er ekki bara verið að bíða eftir að slysin gerist og þá meina ég eitthvað virkilega alvarlegt

 

Í vikunni sem leið fékk umrædd stúlka í síðasta bloggi dásamlega þjónustu. Farið var fyrir hana í búðina, komið og gert fyrir hana te óumbeðið og hugsað extra vel um hana og yfirleitt er það þannig og hún er ofsalega ÞAKKLÁT FYRIR ÞAÐ.

 

Ég er þakklát fyrir svo margt og finnst ofsalega leiðinlegt að vera stundum misskilin en það er eitthvað sem getur alltaf gerst. Aðgát skal höfð í nærveru sálar enda erum við misjafnlega viðkvæm, ég veit að ég er það, viðkvæm það er að segja.

 

Elskið hvert annað og aðstoðum hvort annað. Gerum þennan heim aðeins betri með því að vera besta útgáfan af okkur sjálfum.

 

Knús úr Árbænum

 


Þakklát

Sæl kæru lesendur

 

Ég hef verið að hugsa um hvað ég er þakklát fyrir.

Ég hef rödd og heyrn. Ég hef tilfinningu fyrir snertingu, ég get elskað og verið elskuð. Öll fegurðin í kringum mig sem ég sé með augum mínum. Allir litirnir í náttúrunni og dýrin sem skottast um í kringum mann.Ég er líka ofsalega þakklát fyrir það að vera einstaklingur sem er ekki háður öðrum.

Málið er að ég þekki stelpu sem á við mikla fötlun að stríða. Hún er algjörlega háð öðru fólki til að komast í og úr rúmi en er þokkanlega sjálfbjarga þegar í hjólastólinn er komið. Hún eyðir mestum tíma í stólnum, fer í honum út, er í honum á daginn, borðar í honum og gerir allt sem gera þarf í honum. Henni líður í raun best í honum og getur sinnt sér að mestu leiti þegar hún er komin í hann. Núna er stóllinn orðin í kringum 10 ára og vegna mikillar notkunnar er að sjálfsögðu farið að sjá á honum. Hann er skítugur (þótt reynt sé að þrífa hann reglulega) og alltaf er hætta á að hann fari að bila. Hún hefur sótt um oftar en einu sinni um að fá stólinn endurnýjaðann og geta þá haft þennan stól sem aukastól til að fara í út og ef taka þarf hinn í tékk, svona eins og að eiga inni,- og útiskó. En í hvert sinn sem hún sækir um fær hún neitun. Ok ég veit að þetta er dýrt en einn svona stóll kostar á milli 6-10 milljónir. Fyndna við þetta er að ef hún myndi sækja um bílastyrk þá fengi hún hann mjög sennilega (hún hefur bæthevei ekkert við bíl að gera) en þegar kemur að stólnum þá eru víst ekki til peningar, ekki einu sinni styrkur þannig að hún gæti þá reynt að kaupa stólinn sjálf.

 

Það sem hjálpartækjamiðstöðin vill gera er að fá stólinn og yfirfara hann sem er í raun gott og blessað nema það að það gæti tekið um viku og þyrfti hún því að eyða þeim tíma upp í rúmi. Hún getur ekki snúið sér né gert annað ef hún er rúmmliggjandi. Hún er alveg upp á aðra kominn til að hjálpa sér að öllu leyti. Hún fær ofsalega verki í bakið og þarf á sjúkraþjálfun að halda sem hún gæti ekki sinnt ef hún er stólalaus og þegar hún þarf að vera rúmliggjandi verður verkurinn kvalafullur. 

 

Hún hafur samt verið tilbúin til að leggja þetta á sig til að hafa stólinn í lagi þangað til núna.

 

Á föstudagsmorguninn vaknaði hún klukkan 9 og ýtti á neiðarhnappinn sem hún er með um handlegginn. Hnappurinn sendir skilaboð í síma starfsmanna og eiga þeir að koma eins fljótt og hægt er til að aðstoða hana við að fara framúr og klæða sig. En enginn kom. Hún ýtti aftur og aftur á hnappinn og ekkert gerðist. Eftir lengri tíma var hún orðin skelfingu lostin þar sem enginn kom að aðstoða hana og fór hún því að kalla á hjálp vonandi að einhver heyrði í henni. Hún öskraði stöðugt í lengri tíma og það hátt að nágranni hennar sem er heyrnaskert heyrði í henni og hringdi í yfirmanninn. Klukkan 12:45 tæplega 4 klukkutímum eftir að hún sendi fyrstu skilaboðin kom yfirmaður staðsins til hennar og hún fékk loks aðstoðina sem hún þurfti. Kom þá í ljós að enginn var með símann. Ég skil ekki svona vinnubrögð því þetta er annað skiptið á stuttum tíma sem þetta gerist en málið er að það gleymist æði oft að tæma símann þannig að hann er alveg fullur og skilaboðin ná ekki í gegn.

 

Í gær mánudag átti hún erfitt með að tala þar sem hún er svo hás eftir margra klukkutíma öskur. 

 

Það verður að fara að gera eitthvað í þessu þjóðfélagi. 

Í fyrsta lagi verður að hafa meira fjármagn þannig að það sé alla vega nóg af hæfu starfsfólki til að hugsa um þá sem þurfa á því að halda. 

Mér finnst líka algjör mannréttindi að fólk sem bundið er hjólastól geti haft 2 stóla eða alla vega geta fengið góðan lánsstól á meðan verið er að gera við eða yfirfara stól einstaklingsins.

 

Já ég er þakklát fyrir það að geta gert flesta hluta sjálf. Ég kemst sjálf upp í rúm og ég kemst fram úr því líka. Ég er ekki háð því að einhver klæði mig, hjálpi mér að borða og ég get komist í bað/sturtu þegar mér hentar ekki þegar tími telst til sem gæti verið 1 sinni í viku ef maður er heppin.

 

Já ég ætla að reyna að horfa á þá hluti sem maður telur sjálfsagða og vera þakklát fyrir þá, því maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ef til vill mun ég vera í þeirri aðstöðu að þurfa hjálp og þá vona ég að ég muni fá hana.

 

Kveðja

Árbæjarkonan


Smá breytingar

Sælar skvísur (og peyjar)

 

Það er smá breyting á afsláttinum

 

Shine.is ætlar að vera með 15% afslátt til 17. september

 

Kóðinn er Bikinikroppar

 

Minni á hina afslættina sem eru í færslunni á undan :)

 

knús til ykkar

Konan í Árbænum 


Það styttist og styttist

Það er alveg að fara að koma að þessu

 

Það sem er komið í hús er

2 fyrir 1 í Laugardalslaug og Akureyrarlaug  

25% afsláttur í Body Shop dagana 3-4 september

15% afsláttur í Fotia.is dagana 3-17 september

10% afsláttur í Shine.is dagana 3-17 september

30% afsláttur í Gellubudin.is í september

Gjafir frá EGF Bioeffect

Gjafir frá Ásbirni Ólafs

Það eina sem þið þurfið að gera er að mæta á svæðið og hafa gaman og til að fá afslættina þarf að hafa kóðann Bikinikroppar :) MUNIÐ AÐ SEGJA BIKINIKROPPAR (eða setja á inní afsláttarkóða á síðunum) ANNARS FÁIÐ ÞIÐ EKKERT :) 

Munið svo að þið eruð falleg alveg eins og þið eruð og eins og ein af mínum uppáhalds segir alltaf (Á NOKKRAR UPPÁHALDS JÁ) 

Mundu að þú átt að þykja vænt um þig núna eins og þú ert NÚNA :)

(Heiðdís Austfjörð, kíkið á haha á haustfjord.is, líka á snappinu)

 

 

Kveðja úr Árbænum

 

MUNIÐ SVO AÐ LÍKA OG DEILA

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband